„Við vorum að koma úr upptökuferð inni í Borgarfirði. Hjaltalín hafði verið yfir helgi í félagsheimili inn í Reykjadal og við vorum bara að taka upp og vinna. Við Ásgeir fylltum bílinn hans af þyngsta dótinu, bara á svona fallegum degi, og við vorum að keyra Kjalarnesið og það kom bara vindhviða í hálku og hann missti stjórn á bílnum og við fórum nokkrar veltur og lentum ofan í skurði á hvolfi,“ sagði Sigríður þegar hún rifjaði upp atvikið.
Þau sluppu að mestu ómeidd frá slysinu, aðeins nokkrar skrámur og tak í bakið. Hún segir einhverja verndarengla hafa verið að störfum þar sem betur fór en áhorfðist.

Héldu að engin væri á lífi í bílnum
„Ég hélt við værum að deyja,“ sagði Sigríður þegar hún var spurð hvað hafði farið í gegnum huga hennar þegar slysið varð. Aðkoman var sláandi og hún minnist þess að einn þeirra sem komu á vettvang sagði það vera útilokað að einhver væri á lífi í bílnum.„Hann opnar bílinn að aftan og ég heyri mann segja: „Það er pottþétt enginn lifandi í þessum bíl“. Ég hélt það líka en við erum augljóslega lifandi fyrst hann er að segja þetta, fyrst ég heyri þetta,“ sagði Sigríður og segir tímann hafa liðið hægt á meðan slysinu stóð.
Sveitarmeðlimum sem komu að bílnum að sækja það sem í honum var hafi brugðið mjög að sjá bílinn enda gjörsamlega ónýtur.
„Skíthrædd“ í bíl eftir slysið
Sigríður segist hafa átt erfitt með að sjá hluti sem minntu sig á slysið í kjölfar þess, til dæmis mikinn snjó. Hún eigi enn í dag erfitt með að sitja í bíl og geti verið óþolandi farþegi oft á tíðum.„Ég er skíthrædd í bíl og ég get verið mjög óþolandi í bíl eftir þetta.“
Hún segir það hafa hjálpað að þau voru ófeimin að ræða slysið sín á milli og eftir slysið hafi þau hist í góðra vina hópi á Kaffibarnum. Sú hefð hélt áfram í nokkrar mánuði eftir slysið og hittust þau á mánudagskvöldum í einhvern tíma en slysið varð á mánudegi.
„Ég held að við höfum sloppið nokkuð vel.“
Viðtalið við Sigríði má heyra í spilaranum hér að neðan.