Kuldakastið í síðustu viku stytti endingartíma rafvagna Strætó BS um um það bil tvær klukkustundir, þetta staðfestir Guðmundur Heiðar Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó bs.
Mikið frost var í vikunni en í Reykjavík mældist allt að 21,3°C frost. Slíkt veðurfar hefur áhrif á endingu raftækja eins og snjallsímanotendur gætu þekkt og eru rafvagnar Strætó bs því ekki undanskildir.
14 rafvagnar Strætó bs. aka alla jafna um götur höfuðborgarsvæðisins en notkun á þeim hófst í apríl í fyrra. Guðmundur Heiðar Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó bs, segir engar raskanir hafa orðið á leiðum Strætó vegna kuldans.
Guðmundur segir að bílstjórar strætisvagna hafi tekið eftir því í vikunni að vegna kuldans dugi vagnarnir að meðaltali tveimur tímum skemur en venjulegt er. Undir venjulegum kringumstæðum aki vagnarnir frá 6-16, þá sé þeim komið fyrir í hleðslu áður en þeir fara aftur út á stræti borgarinnar til miðnættis. Vegna kuldans hafi Strætó hinsvegar þurft að skipta þeim út um klukkan 14.
Guðmundur sagði í samtali við Vísi að til þess að taka á þeim vanda hafi Strætó einfaldlega haft dísel-vagna klára til vara.
Guðmundur segir kuldann hafa þessi áhrif á raftæki og lítið sé hægt að gera í málinu fyrr en að tæknin þróist enn frekar.
Fréttin hefur verið uppfærð með réttum upplýsingum um daglega notkun rafvagnanna.
Kuldakastið hefur haft áhrif á endingu rafvagna Strætó
Andri Eysteinsson skrifar
