Vísir fékk tækifæri til þess að ræða við Ceferin í morgun og það spjall gekk aðallega út á formannskjör KSÍ sem fer fram þann 9. febrúar næstkomandi. Ceferin segist ekki mega mæla með Guðna sem formanni en það leynir sér ekki að hann er hrifinn af honum.
Aldrei betri samskipti á milli UEFA og KSÍ
„Ég get ekki formlega stutt við bakið á neinum frambjóðanda því það er undir aðildarfélögum KSÍ að kjósa sér formann,“ segir Ceferin en hann gefur Guðna engu að síður sín bestu meðmæli.
„Ég verð þó að segja að ég ber mikla virðingu fyrir Guðna Bergssyni. Ég tel hann vera frábæran leiðtoga og KSÍ hefur aldrei átt í eins góðum samskiptum við UEFA og það gerir í dag með Guðna sem formann.“

„Það er erfitt að segja hvort þau voru slæm eða ekki og ég vil ekki dæma Geir því ég þekki hann ekki mikið. Staðreyndin er samt að samskiptin núna eru frábær og ég efast um að þau verði betri með öðrum manni í brúnni. Öllum í Evrópu líkar vel við Guðna og treystu mér að það skiptir miklu máli varðandi framtíðarþróun íslenska boltans. Guðni er frábær formaður fyrir Ísland,“ segir Ceferin og bætir við að öll kynni af Guðna hafi verið góð og þeir séu vinir. Aftur á móti þekki hann Geir lítið sem ekkert.
Ekkert persónulegt gagnvart Geir
Hinn slóvenski Ceferin var kjörinn forseti UEFA árið 2016. Hann vann forsetakjörið með miklum yfirburðum, 42-13. Það kom fram á þeim tíma að Geir var einn þeirra þrettán sem kaus mótframbjóðandann þó svo kosningin væri leynileg. Er Ceferin að svara fyrir sig með því að mæra Guðna í aðdraganda formannskjörs KSÍ?
„Enginn veit hver kaus hvern því kosningin var leynileg. Það voru þrettán lönd sem kusu mig ekki og þau lönd eru flest enn með sama formann og ég vinn vel með þeim. Mótframbjóðandi minn árið 2016, Michael van Praag, er góður samstarfsmaður minn í dag,“ segir Ceferin.
„Þetta er ekkert persónulegt af minni hálfu og fyrir mig er mikilvægt að tjá mig um hvað mér finnst og mér finnst að Guðni Bergsson sé góður formaður. Það hefur ekkert með Geir að gera.“
Nánar verður rætt við Ceferin í kvöldfréttum Stöðvar 2.