Enski boltinn

Özil vildi ekki fara til PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mesut Özil.
Mesut Özil. Getty/Catherine Ivill
Mesut Özil, miðjumaður Arsenal, gat farið á láni til franska stórliðsins Paris Saint Germain en sagði „nei takk“ ef marka má fréttir frá Þýskalandi.

Sky Sports vitnar í frétt Suddeutsche Zeitung um að Özil hafi ekki viljað fara til Frakklands og vilji heldur vera áfram í London þrátt fyrir óvissu um spilatíma.





Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur lítið notað Mesut Özil að undanförnu og lítur út fyrir að þýski miðjumaðurinn sé ekki inn í hans framtíðarplönum.

Paris Saint Germain var að missa Neymar í tíu vikur vegna meiðsla og verða meðal annars án Brasilíumannsins í Meistaradeildarleikjunum á móti Manchester United.





Thomas Tuchel, stjóri PSG, var því að leita sér að liðstyrk og sá möguleika í að fá Mesut Özil á láni samkvæmt frétt Suddeutsche Zeitung. Nú ætlar hann að reyna að fá Willian frá Chelsea í staðinn. 

Özil hefði þá fengið tækifæri til að spila í Meistaradeildinni í stað þess að vera í Evrópudeildinni með Arsenal.

Mesut Özil er á gríðarlega háum launum eftir að hafa skrifað undir nýjan samning við Arsenal og það hefur skapað vandræði fyrir félög sem hafa áhuga á að fá hann á láni.

Özil fær 350 þúsund pund í laun á viku eða um 55 milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×