Nágranninn, sem ekki vill láta nafns síns getið, segir frá ferðum mannanna tveggja í samtali við norska dagblaðið Verdens Gang, VG. Hann segist hafa séð þá tvisvar við veiðar á bryggju við Langavatn, um hundrað metrum frá heimili Hagen-hjónanna í Lørenskógi. Eitthvað í fari mannanna hafi verið einkennilegt.
„Ég hef aldrei séð neinn veiða á bryggjunni áður en það gæti vel verið algengt. Það var aðallega heildarmyndin sem mér fannst skrýtin. Það var sláandi hvað þeir létu sig annað fólk litlu skipta og þeir höfðu með sér stóra myndavél með stórri aðdráttarlinsu,“ hefur VG eftir manninum.
Heyrðist þeir tala austurevrópskt tungumál
Hann segist hafa farið niður að bryggjunni með börn sín næstum hverja helgi síðustu tvö ár til að gefa öndunum brauð. Hann hafi séð mennina tvisvar, í september eða október, og tilkynnt ferðir þeirra til lögreglu um leið og fyrst var greint frá hvarfi Anne-Elisabeth. Maðurinn telur þá hafa verið svartklædda, um 35-45 ára gamla og þá heyrðist honum þeir tala austurevrópskt tungumál, þó ekki pólsku.
Þó er tekið sérstaklega fram í frétt VG að vatnið sé vinsæll fuglaskoðunarstaður og því alls ekki óvanalegt að þar sé fólk á ferli með myndavélar.
Leita ekki að Anne-Elisabeth í vatninu
Í morgun hóf norska lögreglan leit við Langavatn og hafa kafarar verið sendir ofan í vatnið það sem af er degi. Í tilkynningu frá lögreglu segir að ekki sé leitað að Anne-Elisabeth sjálfri í vatninu heldur vísbendingum sem gætu komið að notum við rannsókn málsins.Gert er ráð fyrir að leitað verði áfram við vatnið næstu tvo daga. Lögregla hyggst ekki tjá sig um það sem kafarar og rannsóknarlögreglumenn kunni að finna við leitina.
Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth síðan 31. október síðastliðinn og hefur lögregla engar vísbendingar um það hvort hún sé lífs eða liðin. Gengið er út frá því að henni hafi verið rænt en mannræningjar hafa krafist milljónalausnargjalds í órekjanlegri rafmynt.