Hvítbókin kom út hinn 10. desember síðastliðinn en hún var unnin af starfshóp sem skipaður var af fjármála- og efnahagsráðherra.
Í hvítbókinni er meðal annars ítarleg umfjöllun um þá valkosti sem stjórnvöld hafa vegna eignarhalds á fjármálafyrirtækjum en ríkissjóður á í dag 100 prósent hlutafjár í Íslandsbanka og rúmlega 98 prósent hlutafjár í Landsbankanum.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: „Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því. Ljóst er þó að ríkissjóður verður leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun.“ Er þar verið að vísa til Landsbankans.
Höfundar hvítbókar telja „skynsamlegt að fara af fullum krafti í að bjóða viðskiptabönkum í nágrannaríkjunum að kaupa Íslandsbanka í heild,“ eins og þar segir orðrétt. Þá er lagt til að ríkissjóður minnki hlut sinn í Landsbankanum í áföngum í gegnum skipulegan verðbréfamarkað. „Skynsamlegt er talið að skrá Landsbankann á markað og selja þá eignarhluti ríkisins í bankanum sem það hyggst láta frá sér í áföngum,“ segir í hvítbókinni.
Bjarni Benediktsson sagði á Alþingi í dag í þessari sérstöku umræðu um hvítbókina að það væri ekki heilbrigt að ríkissjóður ætti tvo þriðju hluta af bankakerfinu eins og staðan er núna.
„Það er ekki heilbrigt að stjórnvöld haldi á tveimur þriðju af bankakerfinu. Að minnsta kosti stingur það mjög í stúf þegar borið er saman við nánast öll ríki nálægt okkur,“ sagði Bjarni. Hann sagði það væri hætta fólgin í því fyrir ríkið að eiga stóran hlut í bönkunum en ríkissjóður væri með um 300 milljarða króna bundna í bankakerfinu í dag. Það væri um 40 prósent af opinberum skuldum eða tæp 17% af landsframleiðslu. „Áhætta eða breytt landslag á fjármálamörkuðum vegna nýrrar tækni sem er að ryðja sér til rúms, eða vegna breyttra reglna, getur rýrt eignarhlut ríkisins verulega,“ sagði Bjarni.
Háar arðgreiðslur heyra sögunni til
Bjarni sagði að í eignarhaldi ríkisins á bönkunum fælist líka fórnarkostnaður fyrir ríkið. Fjármunir sem bundnir væru í bönkunum myndu ekki nýtast til annarra verkefna eða til að lækka skuldir ríkissjóðs.„Ekki er hægt að rökstyðja eignarhaldið með háum arðgreiðslum þar sem umtalsverð breyting er að verða á hagnaði bankanna borið saman við síðustu ár og útlit fyrir lægri arðgreiðslur fram á við litið. Hérna er ég sérstaklega að vísa til þess að arðgreiðslur hafa að miklu leyti verið bornar uppi af tiltekt og endurskipulagningu á efnahag bankanna. Það hefur myndast einskiptishagnaður sem hefur verið greiddur út í háum arðgreiðslum á undanförnum árum.“
Bjarni rakti þær ströngu reglur sem þegar gilda um hæfi þeirra sem fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Þá hefðu möguleikar eigenda til að beita bönkum í eigin þágu verið skertar verulega frá „síðasta fjármálaáfalli“ (bankahruninu). Þá fór hann yfir þær lögbundnu meginreglur sem stjórnvöld þurfa að fylgja við sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Þá sagði Bjarni að ríkisstjórnin myndi gefa sér góðan tíma í þetta verkefni. „Það eru ýmsar leiðir færar. Ég tel enga þörf á óþolinmæði. Við þurfum ekkert að flýta okkur. Við þurfum aðallega að vanda okkur í þessum efnum. En það er mikilvægt að leggja sem fyrst fram ábyrga og trúverðuga áætlun um losun eignarhalds á öðrum eða báðum bönkunum þannig að það samræmist framtíðarhagsmunum íslenskra neytenda og samfélagsins alls. Það er mín skoðun að það liggi nær við að beina sjónum sínum að Íslandsbanka. Gefa því þann tíma sem það tekur. Um framtíðar eignarhald og þróun þess fyrir Landsbankann eru uppi spurningar sem við tökumst bara á við þegar fyrra verkefninu er lokið.“