Innlent

Gríðarleg uppbygging íbúðarhúsnæðis áætluð á Suðurlandsbraut

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Fyrirhugað er að byggja allt að fimm hundruð íbúðir og sex þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði við Suðurlandsbraut og Ármúla. Rífa á iðnaðarhúsnæði sem fyrir er á lóðinni en Orkuhúsið fær að standa. Borgarstjóri vonast til að hægt verði að hefja framkvæmdir á næstu misserum.

Fasteignafélagið Reitir hyggst byggja að lágmarki 45.000 fermetra á lóðinni við Suðurlandsbraut 34 og Ármúla 31. Borgarstjóri og forstjóri Reita skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um uppbygginguna.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir verkefnið tengjast borgarlínu beint. 

„Hérna beint fyrir utan verður Borgarlínustöð samkvæmt hugmyndum um verkefnið. Við sjáum fyrir okkur að það verði þróunarás frá Hlemmi að Suðurlandsbraut, Skeifu og Ártúnshöfða þar sem muni fjölga íbúðum á spennandi stöðum en Borgarlínan verður beintengd við svæðið,“ segir Dagur. 

Arkitektar verða fengnir til að endurskoða deiliskipulag fyrir svæðið að sögn Dags.

„Það er stefnt að því að framkvæmdir hefjist innan við tveimur árum eftir að framkvæmdir liggja fyrir. Vonir mínar eru að þessi uppbygging fari af stað á næstu misserum,“ segir Dagur. 



Guðjón Auðunsson forstjóri Reita segir að áætlað sé að byggingarkostnaður á hvern fermetra sé um þrjúhundruð og fimmtíu þúsund krónur og því má ætla að kostnaðurinn við uppbygginguna verði tæpir sextán milljarða króna.

„Þetta er gríðarmikil fjárfesting en hún er ætluð til langstíma,“ segir Guðjón.

 Fimmtán prósent íbúða á lóðinni verða leiguíbúðir, íbúðir Félagsbústaða og eða búseturéttaríbúðir en eftir á að ákveða til hvaða annarra markhópa verður höfðað með restina.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×