Skoðun

Færum myrkrið frá morgni til kvölds

Pétur Gunnarsson skrifar
Sennilega er okkur Íslendingum ýmislegt betur lagið en að fara eftir aðstæðum. Mætti nefna mörg dæmi þar um, en látum nægja þau endemi að við skulum stefna börnum okkar á hverjum virkum degi út í náttmyrkrið að vetrinum. Það jaðrar við ofskynjanir að sjá þau trítla í myrkrinu með töskurnar á bakinu eins og litlir fallhlífarhermenn innan um æðandi stálflykkin, oft við akstursskilyrði sem nálgast blindakstur.

Þetta er þeim mun ótrúlegra að við höfum í hendi okkar að breyta þessu með einu pennastriki, án minnstu útgjalda, og gerðum það reyndar allt til ársins 1968 á meðan klukkunni var breytt vor og haust, þar til svokölluðum viðskiptahagsmunum var leyft að lögfesta myrkrið.

En þá mætti kannski hafa í huga að árið 1968 – fyrir hálfri öld – var Reykjavík smábær í samanburði við þá borg sem nú flæðir yfir holt og móa. Ennfremur að árið 1968 var einkabíllinn tæplega kominn til sögu, fleytifullir strætisvagnar fluttu borgarbúa á milli staða auk þess sem allt var í göngufjarlægð fyrir þá sem vildu ferðast á hestum postulanna.

Þyrfti ekki að taka þessar breytur með í myndina nú þegar við hugleiðum að færa klukkuna aftur til dagskímu að vetrinum? Til grundvallar liggja skýrslur unnar af vísindafólki sem talar einum rómi um mikilvægi þess að taka mið af hnattstöðu landsins. Líkt og menn gerðu reyndar í þúsund ár á meðan hér bjó landbúnaðarþjóð. Dagurinn byrjaði þegar dagaði, svo einfalt var það. Eða með orðum Jónasar frá Hrafnagili: „En nærri fóru menn um það af vana, hvenær fara skyldi á fætur. Réð jafnan birta á morgnana á vetrum?…“ (Íslenskir þjóðhættir, bls. 1)

Um það þurfti hvorki skýrslur né rökræður í þingnefndum, allt og sumt var að líta út um gluggann.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×