Aragrúi fjölmiðlamanna er mættur á svæðið og var þeim öllum haldið fyrir utan keppnissalinn í Köln eftir slysið sem gerðist á æfingu spænska liðsins. Það æfði á undan Þjóðverjunum og meiddist markvörður Spánar þegar að auglýsingaskilti féllu á hann.
Fjölmiðlahópurinn stóð allur fyrir utan stórar dyr og mátti ekki fara inn áður en þýska liðið væri komið inn á gólf en leikmenn Þýskalands þurftu að ganga í gegnum fjölmiðlaskarann og fór næstum illa þegar að einn þýskur rakst í myndavél sem lá á gólfinu. Hann hrasaði en ekkert meir kom fyrir.
Þýska liðið hitaði upp í fótbolta og er svo sannarlega vonandi að leikmenn heimamanna séu jafngóðir í fótbolta og þeir eru í handbolta því þá þurfa íslensku strákarnir ekkert að óttast. Ljóst er að enginn mun eiga feril í fótboltanum eftir að handboltanum lýkur.
Búið er svo að raða upp þýskum fánum á hvert einasta sæti í höllinni fyrir morgundaginn en Þjóðverjar eiga næstum alla 20.000 miðana sem í boði eru á leikinn gegn Íslandi annað kvöld.
Hér að neðan má sjá myndir frá æfingunni hjá þeim þýsku.



