„Það er ekki gaman að enda hátíðirnar svona. Þetta er skelfing,“ segir Bjarnveig Guðbjartsdóttir, ein af íbúum fjölbýlishússins að Eddufelli 8 í Breiðholti þar sem eldur kviknaði fyrr í kvöld.
Hún og sonur hennar Guðbjartur voru fyrir utan húsið þegar fréttastofa náði tali af þeim og biðu þau eftir fregnum af slökkvistarfinu.
„Maður veit ekki neitt. Maður er bara að bíða eftir að fá að vita eitthvað,“ segir Guðbjartur sem var á leið heim til sín þegar hún fékk símtal um að kviknað hefði í húsinu.
Svo virðist sem eldurinn hafi náð að læsa sig í klæðningu hússins. Í samtali við Vísi fyrr í kvöld sagði varðstjóri hjá slökkviliðinu að þeir teldu sig vera búna að slökkva eldinn enrífa þyrfti klæðningu utan af húsinutil þess að ganga úr skugga um það.
25 íbúðir eru í húsinu sem var rýmt í snatri er slökkviliðið mætti á svæðið. Rauði krossinn sér um íbúana á meðan á slökkvistarfi stendur og hafast þeir við í strætisvagni fyrir utan húsið.
