Innlent

Íbúum í Fossvogi blöskrar umgengni við grenndargáma

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svona var umhorfs á grenndarstöðinni við Grímsbæ á tíunda tímanum í morgun.
Svona var umhorfs á grenndarstöðinni við Grímsbæ á tíunda tímanum í morgun. Vísir/Vilhelm
Nokkur umræða hefur skapast í hverfahópnum 108 RVK- Hveragrúbba vegna umgengni við grenndargámana við verslunarmiðstöðina Grímsbæ við Bústaðarveg. Mikið magn rusls má finna fyrir utan gámana en þar virðist fólk skilja ruslið eftir þegar gámarnir fyllast.

Íbúar velta fyrir sér hvað sé til bragðs að taka. Hvort koma þurfi upp myndavélum á svæðinu eða hreinlega finna grenndargámunum annað stað. Sóðarnir geti verið „hvaðan sem er“ úr bænum að skilja ruslið sitt eftir óáreittir.

Fyrrverandi íbúi í Fossvoginum segir ástandið við Grímsbæ eins og í stofu hjá hástéttarfólki miðað við gámana á Háaleitisbraut. Það sé ljóst að eitthvað mikið sé að fólki.

Grenndarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu eru rúmlega áttatíu. Á heimasíðu Sorpu má sjá yfirlit yfir þær auk þess sem hægt er að tilkynna um fulla grenndargáma.

Magnið tengist vafalítið neyslu í kringum nýafstaðnar hátíðar.Vísir/Vilhelm
Fróðlegt verður að sjá hverjir verða fyrri til að bjarga málunum. Starfsfólk borgarinnar eða plokkarar.Vísir/Vilhelm
Minna er um rusl í kringum gám Rauða krossins við hliðina á.Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×