Erlent

Lést eftir að hafa fest sig í fatasöfnunargámi

Andri Eysteinsson skrifar
Frá kanadísku borginni Toronto.
Frá kanadísku borginni Toronto. EPA/Warren Toda
Kanadísk kona fannst í morgun látin ofan í fatasöfnunargámi í borginni Toronto í Kanada. Konan mun hafa fest sig í „tönnum“ sem komið hefur verið fyrir í opi gámsins. Þar festist hún og lést snemma á þriðjudagsmorgun.

Samkvæmt frétt BBC höfðu sjö Kanadamenn látist í sambærilegum slysum síðan árið 2015, þar af fyrir um tveimur vikum. Fjöldi bæja, samtaka og einstaklinga hafa kallað eftir því að gámarnir verði teknir úr umferð og nýjum komið fyrir í staðinn.

„Tennurnar“ eru á gámunum til að fyrirbyggja þjófnað en ljóst er að hætta getur fylgt þeim.

Samkvæmt frétt BBC reyna margir að teygja sig í flíkur úr gámnum auk þess að heimilislausir leiti oft skjóls í gámum sem þessum. Það geti þó reynst mönnum erfitt að komast út úr gámunum aftur.

Verkfræðiprófessor hjá Háskólanum í Vancouver, Ray Taheri, sagði í samtali við CBC að nemendur hans væru nú að hanna nýja gerð af gámum. Taheri segir að enginn hafi við hönnun upphaflegu gámanna hugleitt hvað gerðist ef einhver kæmist inn í gáminn. „Gámurinn verður dauðagildra,“ sagði Taheri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×