Það gerði hann í 3-0 sigri CSKA Moskvu á Evrópumeisturunum í Meistaradeild Evrópu fyrr í þessum mánuði. Arnór gaf einnig stoðsendingu í leiknum en hann segir að það hafi verið einstök tilfinning að skora á þessum fornfræga velli.
„Það var ólýsanleg tilfinning að sjá boltann í netinu og að vinna 3-0 á Bernabeu er ekki leiðinlegra,“ sagði Arnór en þrátt fyrir sigurinn dugði hann CSKU Moskvu ekki til að komast áfram, hvorki í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar né heldur 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar. CSKA hafnaði neðst í riðlinum með sjö stig og er úr leik í Evrópukeppnunum í ár.
CSKA Moskva er stórlið og Arnór finnur vel fyrir því. Hann nýtur góðs af því að annar Íslendingur er í liðinu, miðvörðurinn Hörður Björgvin Magnússon, sem hefur hjálpað honum að aðlagast vel á skömmum tíma.
„Það er mikil pressa á okkur og þetta er stór klúbbur. Maður finnur það í rússnesku deildinni að það er ekkert kjaftæði í boði þar. Það er mikil pressa á okkur, en það er gaman,“ sagði Arnór.