Lögregla í Víetnam hefur handtekið sex karlmenn fyrir að hafa drepið og snætt apa í útrýmingarhættu og sýnt beint frá því á samfélagsmiðlum.
BBC segir frá því að mennirnir séu á aldrinum 35 til 59 ára. Drápu þeir svokallaðan langur-apa í nóvember og sýndu frá því beint á Facebook. Lögregla segir mennina hafa gerst brotlega við lög um vernd villtra dýra.
Víetnamski langurapastofninn er í mikilli útrýmingarhættu og er bara að finna í norðurhluta landsins.
Í yfirlýsingu frá lögreglu segir að erfiðlega hafi gengið að hafa uppi á hinum brotlegu og að einn hinna grunuðu sé sagður hafa keypt apann af veiðimanni fyrir 1,1 milljón dong, um 5.600 íslenskra króna.
Ólögleg kaup og sala á dýrum í útrýmingarhættu eru algeng í Víetnam, þar sem dýrin eru nýtt til manneldis eða lækninga
Handteknir eftir að hafa drepið og snætt apa í útrýmingarhættu
Atli Ísleifsson skrifar
