Ekkert verður af opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hefjast átti klukkan 10 í dag vegna þess að hvorki Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, né Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, svöruðu ítrekuðum fundarboðum nefndarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir í samtali við Vísi að opna fundinum verði frestað og reynt að hafa hann í janúar þegar þing kemur saman á ný eftir jólahlé.
Sjá einnig:Óvíst hvort Sigmundur og Gunnar Bragi mæti á nefndarfund um sendiherrakapal
Hún segir það mjög leitt að þingmennirnir hafi ekki svarað fundarboðum. Einnig voru þeir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, boðaðir á fundinn. Segir Helga Vala að þeir hafi svarað boðinu strax.
Á opna fundinum átti að ræða fund þeirra Sigmundar Davíðs, Guðlaugs Þórs og Bjarna um áhuga Gunnars Braga á því að gegna sendiherrastöðu.
Á upptökunum af samræðum þingmanna á Klaustur Bar heyrast Gunnar Bragi og Sigmundur halda því fram að Gunnar Bragi hafi fengið vilyrði fyrir því að hann fengi sendiherrastöðu í skiptum fyrir að hafa skipað Geir H. Haarde sendiherra í Bandaríkjunum í utanríkisráðherratíð sinni.
Guðlaugur Þór og Bjarni hafa þó neitað því að Gunnar Bragi eigi eitthvað inni hjá Sjálfstæðisflokknum eftir þá skipan.
Svöruðu ekki ítrekuðum fundarboðum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

Tengdar fréttir

Óvíst hvort Sigmundur og Gunnar Bragi mæti á nefndarfund um sendiherrakapal
Hvorugur þeirra hefur svarað fundarboði.

Óska eftir því að Bára gefi skýrslu vegna mögulegs einkamáls
Bára Halldórsdóttir uppljóstrarinn á Klausturbar bjóst við bréfinu sem hún fékk í dag.