Innlent

Brú yfir mynni Þorskafjarðar sögð vænlegri en vegur um Teigsskóg

Kristján Már Unnarsson skrifar
Brú þvert yfir mynni Þorskafjarðar, eins og hún er sýnd í skýrslu Vegagerðarinnar frá því í haust.
Brú þvert yfir mynni Þorskafjarðar, eins og hún er sýnd í skýrslu Vegagerðarinnar frá því í haust. Grafík/Vegagerðin.
Deilurnar um Teigsskóg flæktust enn í dag þegar Reykhólahreppur kynnti nýja valkostagreiningu, með þeirri niðurstöðu að brú þvert yfir mynni Þorskafjarðar sé vænlegasti kosturinn. Þetta er þvert á álit Vegagerðarinnar um að Teigsskógarleiðin sé best. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. 

Hafi einhver gert sér vonir um að það styttist í að Vestfirðingar losni við að aka um hina illræmdu fjallvegi Hjallaháls og Ódrjúgsháls, þá hurfu þær vonir í dag. Nýjasta útspilið gæti seinkað endurbótum Vestfjarðavegar um Gufudalssveit, hugsanlega um mörg ár, en samgönguáætlun gerir ráð fyrir að framkvæmdir gætu hafist á næsta ári.

Ekið niður Ódrjúgsháls í Gufudalssveit.Vísir/Egill Aðalsteinsson
Hreppsnefnd Reykhólahrepps samþykkti fyrir aðeins níu mánuðum að setja svokallaða Þ-H leið um Teigsskóg inn á aðalskipulag en skipti óvænt um kúrs í sumar. Til varð nýr valkostur, svokölluð R-leið, með stórbrú þvert yfir mynni Þorskafjarðar. Þessi stefnubreyting varð eftir að Hagkaupsbræður styrktu hreppinn til að fá norska verkfræðinga að málinu.

Leið Þ-H færi um Teigsskóg. Leið R færi um Stað og Reykhóla.Grafík/Hlynur Magnússon.
Vegagerðin hafnaði Þorskafjarðarbrú í haust eftir að sérfræðingar hennar komust að þeirri niðurstöðu að hún yrði fjórum milljörðum króna dýrari og með minna umferðaröryggi.

Hreppsnefnd Reykhólahrepps, með ráðgjöf Skipulagsstofnunar, ákvað hins vegar að fá nýjan aðila að málinu, Lilju Guðríði Karlsdóttur hjá verkfræðistofunni Viaplan. Niðurstaða hennar núna er að R-leiðin með stórbrú yfir Þorskafjörð sé vænlegust og kosti álíka mikið og ÞH-leiðin um Teigsskóg.

Brúarsporðurinn að austanverðu yrði við jörðina Stað í Reykhólasveit.Mynd/Úr skýrslu Multiconsult.
Hreppsnefnd Reykhólahrepps á næsta leik, að ákveða hvor leiðin fari inn á aðalskipulag. Velji hún R-leið blasa við innansveitarátök við bændur, sem lýst hafa harðri andstöðu, auk þess sem líklegt er að hún þurfi umhverfismat. Þá er óvíst hvort Vegagerðin og samgönguyfirvöld fallist á R-leiðina. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×