Körfubolti

Kristen búin að spila meira en heilan leik að meðaltali í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristen McCarthy.
Kristen McCarthy. vísir/ernir
Kristen McCarthy hefur spilað frábærlega með Snæfellsliðinu í Domino´s deild kvenna í körfubolta í vetur og mikilvægi hennar sést bæði á tölfræðinni sem og á spilatímanum.

Kristen McCarthy var með 35 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar í naumu tapi á móti í framlengdum leik á móti Skallagrím í gærkvöldi. Hún fór aldrei útaf samkvæmt tölfræði KKÍ og spilaði því alls í 45 mínútur í leiknum.

Þetta er fjórði leikurinn sem er framlengdur hjá Snæfellsliðinu í vetur og hefur Kristen McCarthy spilaði alla þessa fjóra leiki frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Þetta gerir það að verkum að Kristen McCarthy er nú búin að spila í meira en 40 mínútur að meðaltali í leik í fyrstu tólf umferðunum í Domino´s deild kvenna.

Kristen McCarthy hefur spilað alls í 482 mínútur og 45 sekúndur í leikunum tólf eða 40,13 mínútur að meðaltali í leik.

Það er því hægt að spila meira en heilan leik að meðaltali séu lið leikmanna dugleg að lenda í framlengdum leikjum eins og Snæfellskonur í vetur.

Á þessum rúmu 40 mínútum í leik er Kristen McCarthy með 27,8 stig, 13,4 fráköst, 5,9 stoðsendingar og 4,5 stolna bolta að meðaltali. Framlagsstigin hennar eru líka 28,2 að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×