Borgarstjórn Reykjavíkur hefur samþykkt að hækka grunnfjárhæð framfærslustyrks velferðarsviðs borgarinnar um sex prósent frá næstu áramótum.
Þannig hækkar grunnfjárhæð framfærslustyrks fyrri einstakling úr 189.875 krónum á mánuði í 201.268 krónur á mánuði. Hjá hjónum og sambúðarfólki fer upphæðin úr 284.813 krónum í 301.902 krónur á mánuði.
Áætlaður viðbótarkostnaður velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna hækkunar fjárhagsaðstoðar er tæplega 49 milljónir króna á árinu 2019.
Samþykkt var að hækka áætlun fjárhagsaðstoðar um rúmlega 94 milljónir króna á næsta ári. Í heild greiðir Reykjavíkurborg um 2,2 milljarða króna á næsta ári til fjárhagsaðstoðar.
Fjárhagsaðstoð hækkar um sex prósent um áramótin
Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
