Dómstóll í Suður-Afríku hefur gefið út handtökuskipun á hendur Grace Mugabe, eiginkonu Robert Mugabe, fyrrverandi forseta Simbabve. Hún er grunuð um að hafa ráðist á fyrirsætu á hótelherbergi í ágúst 2017.
Eftir árásina í Jóhannesarborg hét ríkisstjórn Suður-Afríku Mugabe friðhelgi, en dómstóll felldi síðar ákvörðunina úr gildi.
Lögregla í Suður-Afríku hefur nú leitað liðsinnis Interpol til að hafa hendur í hári Grace Mugabe.
Fyrirsætan Gabriella Engels sakar Grace Mugabe um að hafa slegið til sín með rafmagnssnúru, en Mugabe segir sjálf að Engels hafi ráðist á hana með hníf.
Grace Mugabe var talin líklegur arftaki 94 ára eiginmanns síns í embætti forseta Simbabve sem stýrði landinu frá 1980 til 2017. Robert Mubage var hins vegar bolað úr embætti og tók Emmerson Mnangagwa við embættinu.
