Kona í Taívan var ákærð fyrir þjófnað eftir að hún drakk drykkjarjógúrt meðleigjanda síns eftir að sá síðarnefndi tilkynnti þjófnaðinn til lögreglu. Ráðist var í 60 þúsund króna lífsýnatöku vegna málsins en skattgreiðendur í Taívan segja rannsókn lögreglu sóun á almannafé.
Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir taívanska miðlinum TVBS að hin grunaða hafi búið á stúdentagörðum í Taípei ásamt fimm skólaystrum sínum. Í síðasta mánuði uppgötvaði ein þeirra sér til skelfingar að drykkjarjógúrt í hennar eigu var horfin úr ísskápnum. Hún fann flöskuna utan af drykknum í ruslinu og fór með hana rakleiðis til lögreglu sem féllst á að hefja rannsókn á þjófnaðinum.
Lögregla framkvæmdi einnig lífsýnatöku á konunum sex sem bjuggu í íbúðinni, þ.e. bæði eiganda drykkjarjógúrtarinnar og meðleigjendum hennar. Sýnatakan varpaði ljósi á sökudólginn, einn meðleigjandann sem drukkið hafði jógúrtina í leyfisleysi. Hvert sýni kostaði að andvirði um tólf þúsund íslenskra króna og heildarkostnaður því rúmar sjötíu þúsund krónur.
Nokkur reiði hefur gripið um sig meðal skattgreiðenda á svæðinu vegna þessa en mörgum þykir alltof miklu almannafé varið í rannsókn á svo lítilvægum glæp. Þá er haft eftir lögreglumanni í frétt BBC að vinnubrögð lögreglu séu sambærileg því að nota „fallbyssu til að skjóta fugla“.
Drakk drykkjarjógúrt meðleigjandans og kostaði skattgreiðendur tugi þúsunda
Kristín Ólafsdóttir skrifar
