Erlent

Innanríkisráðherra Þýskalands ætlar ekki að klára kjörtímabilið

Andri Eysteinsson skrifar
Horst Seehofer hefur verið formaður CSU frá árinu 2008.
Horst Seehofer hefur verið formaður CSU frá árinu 2008. EPA/ Clemens Bilan
Innanríkisráðherra Þýskalands og formaður CSU flokksins, Horst Seehofer, hefur tjáð flokksmönnum sínum að hann hyggist segja af sér sem formaður flokksins. Reuters hefur þetta eftir heimildum og greinir frá á vef sínum.

CSU flokkurinn sem er samstarfsflokkur Kristilegra demókrata í Bæjaralandi fékk sína verstu kosningu síðan 1950 í kosningunum sem fóru fram í síðasta mánuði.

Slæm kosning CSU í Bæjaralandi samhliða vonbrigðum Kristilegra demókrata (CDU) í sambandsfylkinu Hessen hafa valdið því að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hyggst ekki bjóða sig fram till endurkjörs sem formaður flokksins á landsfundi í næsta mánuði, en ekki láta af embætti kanslara fyrr en í lok kjörtímabilsins, eða 2021.

Heimildir Reuters herma að Seehofer hyggist einnig segja af sér sem innanríkisráðherra Þýskalands fyrir lok kjörtímabilsins.

Talið er að afsögn Seehofer komi til með að styrkja samstarf CDU og Jafnaðarmannaflokksins SPD en flokkur Seehofer hefur deilt við flokkana um innflytjendamál.

Segi Seehofer af sér verður nýr leiðtogi CSU kjörinn á sérstökum fundi í janúar.


Tengdar fréttir

Þau eru líklegust til að taka við af Merkel

Samflokksmenn Angelu Merkel hafa ólíkar skoðanir um hver skuli taka við af "Mutti“ og hafa einhverjir háttsettir innan flokksins nú þegar lýst yfir framboði til formanns flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×