„Fulltrúar verða að skilja hlutverk sitt í ráðum og halda sig við það sem tilheyrir þeirra ráði,“ segir í bókun fulltrúa Eyjalistans og H-listans í umhverfis- og skipulagsráði Vestmannaeyja vegna meintra afhjúpana í ráðinu á áætluðum kostnaði við tjaldstæði.
Ráðið hefur að undanförnu rætt framtíðarlausn vegna tjaldsvæðis sem verið hefur á byggingarreit við Áshamar í tengslum við Þjóðhátíð. Á þarsíðasta fundi ráðsins bókuðu Sjálfstæðismenn að kostnaður við gerð nýs tjaldsvæðis væri áætlaður á þriðja tug milljóna. „Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekki forsvaranlegt að útsvarsgreiðendur í Vestmannaeyjum greiði fyrir gerð nýs tjaldsvæðis, sem nýta á í fimm daga á ári,“ sögðu þeir.
Á fundi ráðsins á þriðjudag sögðu fulltrúar meirihlutans mikilvægt að koma á framtíðarlausn fyrir tjöldunina. Þá sögðust þeir harma það „ábyrgðarleysi“ fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að hafa veikt samningsstöðu bæjarins með því að opinbera áætlaðan kostnað á fyrri fundi.
„Kostnaður tilheyrir ekki ráðinu en fulltrúar D-listans höfðu ekkert um skipulagið að segja sem tilheyrir ráðinu. Fulltrúar verða að skilja hlutverk sitt í ráðum og halda sig við það sem tilheyrir þeirra ráði,“ sagði í bókun meirihlutafulltrúanna.
Við þessu brugðust Sjálfstæðismenn með því að segja fjarri lagi að það væri ábyrgðarleysi að hugsa um skattfé íbúa og kostnað. Þeir hefðu í málinu komið með tillögur að öðrum ódýrari lausnum.
„Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru fullfærir um að skilja sitt hlutverk í ráðinu hjálparlaust og frábiðja sér fullyrðingar um annað,“ bókuðu þeir.
Segjast fullfærir um að skilja hlutverk sitt án aðstoðar meirihlutans í Eyjum
Garðar Örn ÚIfarsson skrifar
