Erlent

Erlend viðskipti Trump gætu orðið opinber

Kjartan Kjartansson skrifar
Fulltrúar ýmissa ríkja hafa beint viðskiptum sínum að Trump-hótelinu í Washington-borg eftir að Trump varð forseti.
Fulltrúar ýmissa ríkja hafa beint viðskiptum sínum að Trump-hótelinu í Washington-borg eftir að Trump varð forseti. Vísir/Getty
Dómsmálaráðherrar tveggja ríkja í Bandaríkjunum gætu krafist upplýsinga um erlenda viðskiptahagsmuni Donalds Trump forseta eftir að alríkisdómari hafnaði kröfu hans um að slá málinu á frest. Málið var höfðað á grundvelli stjórnarskrárákvæði sem bannar forsetanum að þiggja greiðslur eða gjafir frá erlendum aðilum.

Í stefnu dómsmálaráðherra Maryland og Columbia-svæðis gegn forsetanum er hann sakaður um að brjóta gegn stjórnarskrárákvæðinu með því að eiga í viðskiptum við erlend ríki, meðal annars í gegnum hótelið sem hann á í Washington-borg. Fulltrúar erlendra ríkja hafa verið tíðir gestir þar. Trump hefur hins vegar alla tíð neitað að opinbera skattskýrslur sínar og repúblikanar á Bandaríkjaþingi hafa sýnt litla tilburði til að hafa aðhald með mögulegum hagsmunaárekstrum forsetans.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna krafðist þess að dómarinn í málinu féllist á að fresta því á meðan leitað væri til æðra dómsvalds um álitefni sem það segir uppi. Lögmenn ráðuneytisins halda því fram að verulegur vafi leiki á því hvort að greiðslur sem fyrirtæki forsetans fá frá erlendum ríkisstjórnum falli undir stjórnarskrárákvæðið.

Alríkisdómarinn hafnaði þeim rökum hins vegar og sagði þau „hæpna tillögu“, að sögn Washington Post. Skipaði hann stefnendunum að leggja fram áætlun um upplýsingaöflun í málinu innan tuttugu daga.

Þar með er leiðin greið fyrir stefnendurna að fara fram á upplýsingar um rekstur Trump-hótelsins í Washington-borg.

Athygli vekur að dómarinn hafnaði einnig rökum um að stefnan gegn Trump væri of mikið ónæði fyrir störf hans sem forseti. Vísaði dómarinn til tísts Trump þar sem hann virtist lýsa yfir ósk um að John Brennan, fyrrverandi forstjóri leyniþjónustunnar CIA, stefndi honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×