Erlent

Tugir þúsunda mótmæla útlendingahatri í Berlín

Andri Eysteinsson skrifar
Fyrir litríkara Þýskaland stendur á skilti þessa mótmælenda í Berlín í dag.
Fyrir litríkara Þýskaland stendur á skilti þessa mótmælenda í Berlín í dag. EPA/Kamil Zihnioglu
Tugir þúsunda Berlínarbúa flykktust út á götur þýsku höfuðborgarinnar til að mótmæla útlendingahatri og uppgangi öfgahægriafla í þýskum stjórnmálum.

Gangan var skipulögð af mannréttindasamtökum og segir BBC að forsprakkar göngunnar hafi sjálfir ekki búist við þessum mikla fjölda en yfir 100.000 manns létu sjá sig í dag.

Málefni hælisleitenda hafa mikið verið í umræðunni í Þýskalandi undanfarin misseri. Undir stjórn Angelu Merkel hefur Þýskaland tekið við miklum fjölda flóttamanna.

Ekki eru allir sáttir með þá þróun og hefur öfga-hægri flokkurinn AfD sem boðar breytingar í flóttamannamálum hlotið mikið fylgi.

Öfga-hægri samtök stóðu í ágúst fyrir miklum mótmælum í borginni Chemnitz og öðrum borgum, sérstaklega í austurhluta Þýskalands.

Gangan í Berlín í dag var skipulögð til höfuðs mótmælum eins og þeim sem voru í Chemnitz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×