Erlent

Sádar hafna hótunum vegna hvarfs blaðamannsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Ræðismannsskrifstofan í Istanbúl þar sem talið er að Khashoggi hafi verið myrtur. Þrátt fyrir loforð þar um hafa Sádar ekki hleypt tyrkneskum yfirvöldum á skrifstofuna.
Ræðismannsskrifstofan í Istanbúl þar sem talið er að Khashoggi hafi verið myrtur. Þrátt fyrir loforð þar um hafa Sádar ekki hleypt tyrkneskum yfirvöldum á skrifstofuna. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Sádí-Arabíu segja að hótanir um viðskiptaþvinganir og „falskar ásakanir“ muni ekki grafa undan stöðu landsins. Þrýstingur á þau hefur aukist undanfarna daga í ljósi vísbendinga um að útsendarar þeirra hafi myrt sádiarabíska blaða- og andófsmanninn Jamal Khashoggi.

Ekkert hefur spurst til Khashoggi síðan hann fór inn á ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbúl í byrjun þarsíðustu viku. Tyrknesk stjórnvöld segjast hafa sönnunargögn fyrir því að útsendarar Sáda hafi pyntað og myrt hann á skrifstofunni. Þá hafa verið ásakanir um að þeir hafi bútað niður lík hans og flutt það af skrifstofunni í kössum og ferðatöskum.

Fjöldi vestrænna stórfyrirtækja hefur dregið sig út úr stórri kaupstefnu á vegum Sáda í kjölfar ásakaninna um að ráðamenn í Ríad hafi skipað fyrir um morð á Khashoggi. Vestrænir ráðamenn hafa einnig lýst áhyggjum ef ásakanirnar reynast réttar.

Sádar eru eitt nánasta bandalagsríki Bandaríkjastjórnar í heimshlutanum og ríkisstjórn Donalds Trump forseta hefur verið hikandi við að ganga hart að þeim vegna hvarfs Khashoggi. Trump hefur til að mynda sagt að Bandaríkin væru að refsa sjálfum sér ef þau stöðvuðu vopnasölu til Sádí-Arabíu. Forsetinn sagði þó í gær að stjórn hans myndi beita „ströngum refsingum“ ef í ljós kæmi að Sádar hefðu myrt blaðamanninn sem er búsettur í Bandaríkjunum.

Telur mögulegt að Sádar séu sekir

Yfirlýsing frá opinberum embættismönnum sem birtist í ríkifjölmiðli Sádí-Arabíu virðist viðbrögð við þeirri hótun Trump. Ríkisstjórn konungsveldisins og þjóðin væru enn eins „dýrleg og staðföst“ og áður, að því er segir í frétt Washington Post.

Trump lýsti mögulegu morði Khashoggi sem „virkilega hræðulegu og viðbjóðslegu“ í viðtali við fréttaskýringarþáttinn 60 mínútur sem birtist í kvöld.

„Við yrðum mjög óánægð og reið og það væri tilfellið,“ sagði Trump þar um það ef Sádar reynast hafa myrt blaðamanninn.

„Eins og stendur neita þeir því, og þeir neita því af krafti. Gætu þetta hafa verið þeir? Já,“ sagði forsetinn í viðtalinu.


Tengdar fréttir

Stórfyrirtæki fjarlægja sig Sádum eftir hvarf blaðamannsins

Sum vestræn fyrirtækja hika við að láta bendla sig við Sáda eftir hvarf blaða- og andófsmanns. Bandaríkjastjórn hefur hins vegar verið meira tvístígandi í viðbrögðum sínum við ásökunum um að Sádar hafi myrt hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×