Hann fjallaði um baráttu mannúðarsamtaka gegn kynferðisofbeldi á átakasvæðum. Yves segir að nauðganir og kynferðisofbeldi hafi alltaf verið hluti af hernaði. Til að mynda hafi allar hliðar í heimsstyrjöldunum tveimur beitt nauðgunum án þess að tekið hafi verið á þeim sem stríðsglæp. Á seinni árum sé alþjóðasamfélagið byrjað að opna augun fyrir því hve djúpstætt vandamál kynferðisofbeldi í hernaði sé en vandamálið er enn til staðar.
„Við þurfum að opna augun fyrir því að nauðganir og kynferðisofbeldi er hluti af hernaði og er til staðar í öllum vopnuðum átökum,“ segir Yves. „Það er ekki búið að uppræta þennan hrylling sem er enn hluti af vopnabúri í stríði með tilheyrandi þjáningum fyrir konur og stúlkur en einnig drengi.“
Góðu fréttirnar séu þó þær að með ályktun á borð við þá sem Sameinuðu þjóðirnar samþykktu fyrir tíu árum geta alþjóðastofnanir og ríki tekið í sameiningu á vandanum og hægt er að draga einstaklinga, stofnanir eða ríki til ábyrgðar.

Þegar Rauði Krossinn, Rauði Hálfmáninn og önnur hjálparsamtök fara á stríðssvæði geri þau ráð fyrir að kynferðisofbeldi hafi átt sér stað, annað heyri til undantekninga.
„Þegar þú ert að fjalla um kynferðisofbeldi er ekki um að ræða hefðbundið mannúðarmál,“ segir hann. „Þetta er mun dramatískara, það snertir fólk dýpra, það þorir ekki að tala um það og það skammast sín. Við verðum að viðurkenna það að ef að stríð á sér stað má þar finna kynferðisofbeldi. Við þurfum ekki að leita sönnunargagna, við vitum að það er þarna.“
Áskorun hjálparsamtaka er að greina hverslags ofbeldi á sér stað, hverjir eru gerendurnir og hvernig má skapa öruggt umhverfi fyrir þolendur.
Yves telur að stór hluti vandans sé að of fá ríki honum alvarlega en mörg lönd líti á baráttunna gegn kynferðisofbeldi sem einkaáhugamál nokkurra vestrænna ríkja.

Yves skorar á íslensk stjórnvöld til að reyna að draga Asíuríki, Afríkuríki og múslimaríki í meira mæli að borðinu, þannig vinnist sigrar.
Þá er hann viss um að í þessum efnum muni Ísland og önnur smáríki spila stórt hlutverk á næstu árum. Smáríkjum sé gjarnan betur treystandi fyrir mannúðarmálum enda stafi ekki mikil ógn af þeim. Yves bendir til dæmis á þá staðreynd að fjórir af fimm fastafulltrúum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eiga í stríðsátökum í augnablikinu.
„Sjáið bara það sem þið hafið þegar afrekað og skoðið hvaða nýjungar þið getið lagt til í framtíðinni. Staða ykkar er góð, þið eruð í Atlantshafsbandalaginu og Mannréttindaráði Sameinuðu Þjóðanna. Þannig að ég held að það sé nóg að gera fyrir Ísland í þessum efnum og ég fagna því.“