Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra greindi frá þessum breytingum í Víglínu Stöðvar 2 í dag, hvar hann var gestur Heimis Más Péturssonar.
Í viðtalinu sagði Guðlaugur konur vera að sækja í sig veðrið í utanríkisþjónustu Íslands og sagði kynjahlutföllin á því sviði vera að jafnast út. Í fyrsta skipti séu sendiherrar Íslands í Washington, Berlín og Kaupmannahöfn allt konur.
Benti Guðlaugur í því samhengi á að ekki væri langt síðan Sigríður Snævarr var skipuð sendiherra fyrst allra íslenskra kvenna. Hún var sendiherra Íslands í Svíþjóð á árunum 1991 til 1996. Guðlaugur sagði það vera tímanna tákn að í fyrsta sinn yrðu fleiri kvensendiherrar en karlar í tvíhliða sendiráðum Íslands.
„Þetta er auðvitað í samræmi við þær jafnréttisáherslur sem við erum með í utanríkisstefnu okkar Íslendinga.“
Víglínuna má sjá í heild sinni hér að neðan. Þar ræða þeir Guðlaugur og Heimir meðal annars um skipan Geirs H. Haarde í stjórn Alþjóðabankans og hvort sú skipan hafi verið 10 ára afmælisgjöf, en í dag eru 10 ár frá því Geir bað Guð að blessa Ísland í dramatísku ávarpi til íslensku þjóðarinnar.