
Traust
Á ákveðinn hátt kemur það mér alls ekki á óvart að alþingismenn skuli njóta lítils trausts. Ekki vegna þess að alþingismenn séu almennt svikahrappar, heldur meira út af eðli starfsins og hvað það þýðir í samfélaginu að gegna því. Ég held að traust til alþingis muni alltaf endurspegla traust fólks almennt til þjóðar sinnar, samborgara og jafnvel sjálfs sín.
Á þingi situr þverskurður þjóðarinnar. Sextíu og þrír einstaklingar eru valdir af þjóðinni sjálfri til að sýsla með löggjafarvaldið. Á þingi situr þar af leiðandi alls konar fólk. Þar eru fulltrúar stálheiðarlegra, ekki svo heiðarlegra, athafnasamra, kærulausra, smámunasamra, mælskra, óheppinna, langrækinna, vænisjúkra, kærleiksríkra, fyndinna, ófyndinna og guð má vita hvað. Allt þetta fólk er kosið af okkur hinum.
Hið athyglisverða er, að nánast daginn eftir að þessir fjölbreytilegu fulltrúar okkar taka sæti á þingi hætta flestir að treysta þeim, jafnvel af engri sýnilegri ástæðu. Fólkið – með hugsanlega einstaka undantekningum – hefur nákvæmlega ekkert gert af sér annað en að setjast á þing. Á þeim tímapunkti hrynur traustið. Hvernig á að túlka þetta? Jú, ég held að þetta sýni að í grunninn treystir þjóðin ekki þjóðinni. Þjóðin er ósátt við sig. Hún hafnar vali sínu. Valið er spegill og spegilmyndin þykir ófögur. Þessi sjálfsóánægja er tekin út á alþingismönnum.
Grunsamlegar alhæfingar
Það sem vekur þessar grunsemdir mínar er einkum það, að hið almenna viðhorf um skort á trausti til þingsins er mjög oft sett fram sem alhæfing (og hér er ég að passa mig á því að alhæfa ekki). Þetta eru allt lygarar, þessir andskotar. Þetta er svíkjandi og ljúgandi allan daginn, þetta lið. Þau eru alltaf að rífast um ekki neitt. Svona alhæfingar eru augljóslega ekki réttar. Sumir eru hugsanlega lygarar (en ljúga þó varla allan daginn). Sumir eru svikarar. Sumir rífast, en þó sjaldnast um ekki neitt. Sumir ljúga bara alls ekki og hafa kannski aldrei logið á ævinni (sem mun ábyggilega koma þeim í koll). Sumir eru rosalega vandir að virðingu sinni og láta aldrei tæla sig í ómálefnalegt orðaskak, nema mögulega út af misskilningi.
Í þessar manngreiningar er hins vegar sjaldan farið. Þetta segir mér að traustleysið sem ríkir til fólks í stjórnmálum snýst ekki um mannkosti fólksins eða hvað það gerir eða gerir ekki, heldur snýst þetta meira um almenna stemningu. Það eru einfaldlega ákaflega fáir reiðubúnir til þess að treysta alþingismönnum. Það er bara þannig. Það er nánast hægt að skrifað það inn í starfslýsingu þingmanns að taki manneskja sæti á þingi skuli hún gera ráð fyrir því að missa traust og vera tortryggð sem slík, jafnvel fram á grafarbakkann.
Lýsing um bjartan dag
Ný skýrsla kom út um daginn. Um traust til stjórnmála og hvernig eigi að efla það. Starfshópur um aukið traust er búinn að smíða traustvekjandi tillögur. Það á að auka gagnsæi, svokallað. Það á að setja betri reglur um hagsmunaskráningu og það á að setja reglur um lobbýista. Og margt fleira. Gott og vel. Og Siðfræðistofnun á að vera ríkisstjórninni til ráðgjafar.
Það getur vel verið að þetta leiði til enn betri starfsemi á þingi og í ráðuneytunum. Fólk verði enn frekar á tánum, passi sig, fari eftir reglunum. Hið nýja og góða máltæki „að kaupa lýsingu um hábjartan dag“ kemur þó óneitanlega upp í hugann. Eins og fólk veit merkir máltækið það, að mjög miklu fé og tíma sé varið í óþarfa. Að eitthvað sé gert með ærinni fyrirhöfn, sem bætir litlu við og gerir lítið til að leysa fyrirliggjandi vanda.
Ég held að með hinni miklu áherslu á siðbót, betri ferla, dýpri skilgreiningar, siðfræðiráðgjöf, gagnsæi, skráningar og svoleiðis hluti, sem eru allir góðra gjalda verðir og jafnvel sjálfsagðir, sé verið að kaupa lýsingu um hábjartan dag. Stærsti vandinn er ekki þessi. Þótt alþingismenn yrðu siðferðisleg ofurmenni, í skikkju og klæddir í nærbuxurnar utan yfir buxurnar í þágu gagnsæis, er allt eins líklegt að þeir nytu samt ekki trausts. Vandinn er, vil ég meina, á einhvern hátt dýpri og flóknari.
Skoðun

Hvers vegna styð ég Magnús Karl í kjöri til rektors Háskóla Íslands?
Ingileif Jónsdóttir skrifar

Allt fyrir samansúrrað pólitískt og peningalegt vald?
Arnar Þór Jónsson skrifar

Vopnakaup íslenska ráðamanna
Friðrik Erlingsson skrifar

Samstaðan er óstöðvandi afl
Helga Þórey Júlíudóttir skrifar

Kolbrún Þ. Pálsdóttir – rétti leiðtoginn fyrir Háskóla Íslands
Hafliði Ásgeirsson,Eyjólfur Brynjar Eyjólfsson,Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir skrifar

Hegða sér eins og ofdekraðir unglingar
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Af hverju ættu nemendur að kjósa Magnús Karl sem rektor HÍ?
Eygló Sóley Hróðmarsdóttir Löve,Daníel Thor Myer skrifar

Við mótmælum nýbyggingum í Neðra Breiðholtinu
Jökull Þór Sveinsson,Hlynur Ingi Jóhannsson skrifar

Er „sam-búð“ búsetuform 21. aldar og lausn við háum byggingakostnaði?
Sara Björg Sigurðardóttir skrifar

Tryggjum framtíð endurnýjanlegrar orku á Íslandi
Íris Lind Sæmundsdóttir skrifar

Reynsla, framtíðarsýn og kjarkur Silju Báru
Anna Helga Jónsdóttir,Sigurður Örn Stefánsson skrifar

Gunnar Smári hvað er hann?
Birgir Dýrfjörð skrifar

Um Ingibjörgu Gunnarsdóttur – ferill að rektorskjöri
Rúnar Unnþórsson,Þórhallur Ingi Halldórsson skrifar

Ísland er leiðandi ljós og hvatning til fjölmiðla
Hrönn Egilsdóttir skrifar

Forvarnir á ferð
Erlingur Sigvaldason skrifar

Vertu meðbyr mannúðar
Birna Þórarinsdóttir skrifar

Fegurð sem breytir skólum
Einar Mikael Sverrisson skrifar

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft
Sigurður Örn Hilmarsson skrifar

Björn Þorsteinsson as Rector - A visionary leader uniting disciplines and driving innovation
Marianne Elisabeth Klinke skrifar

Verður Frelsið fullveldinu að bráð?
Anton Guðmundsson skrifar

Til rektorsframbjóðenda: Hvað gerir nýr rektor HÍ við Endurmenntun?
Ólafur Stephensen skrifar

Mataræði í stóra samhengi lífsins
Birna Þórisdóttir skrifar

Hvað varð um loftslagsmálin?
Kamma Thordarson skrifar

Bakpokinn sem þyngist aðeins hjá öðrum
Inga Sæland skrifar

Örlög Íslendinga og u-beygja áhrifamesta fjármálamanns heims
Snorri Másson skrifar

Ég kýs Magnús Karl sem rektor
Bylgja Hilmarsdóttir skrifar

Jóhann Páll: Vertu í liði með náttúrunni ekki gegn henni
Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar

Tífalt hærri vextir, meiri skuldir - menntastefna stjórnvalda?
Júlíus Viggó Ólafsson,Vilhjálmur Hilmarsson skrifar

Lífið gefur engan afslátt
Davíð Bergmann skrifar

Kolbrún Pálsdóttir sem næsti rektor HÍ
Árni Guðmundsson skrifar