Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hefur fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands beðist afsökunar „á því ranglæti,“ sem sakborningar, aðstandendur þeirra og aðrir sem hafa „átt um sárt að binda“ hafa mátt þola vegna Guðmundar-og Geirfinnsmálanna.
Í yfirlýsingu forsætisráðherra, sem send er út vegna vegna nýfallins sýknudóms Hæstaréttar Íslands í málum allra dómfelldu í endurupptökumáli í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, segir að dómurinn hafi verið ræddur á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. „Ríkisstjórnin fagnar málalyktum í einu umdeildasta sakamáli Íslandssögunnar,“ segir í yfirlýsingunnni.
„Ég beini orðum mínum til fyrrum sakborninga, aðstandenda þeirra og annarra sem átt hafa um sárt að binda vegna málsins. Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar bið ég ykkur afsökunar á því ranglæti sem þið hafið mátt þola,“ segir þar ennfremur og er yfirlýsingin undirrituðu af Katrínu Jakobsdóttur.
Á fundi ríkisstjórnarinnar var jafnframt samþykkt að skipaður yrði starfshópur fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og dómsmálaráðuneytis er fái það hlutverk að leiða viðræður og sáttaumleitanir við aðila málsins og aðstandendur þeirra vegna þess miska og tjóns sem þau hafa orðið fyrir.

