Íslenska kvennalandsliðið í handbolta fékk skell gegn Svíum í síðari æfingarleik liðanna í Schenker-höllinni en lokatölur í dag urðu 33-20.
Íslenska liðið lék vel á miðvikudaginn og tapaði þá einungis með einu marki í leik þar sem liðið hefði með smá heppni náð í minnsta kosti jafntefli.
Jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik en þá náðu Svíarnir smá forskoti og komust þremur mörkum yfir. Þær leiddu svo í hálfleik með þremur mörkum, 16-13.
Í síðari hálfleik stigu Svíarnir á bensíngjöfina. Þær voru sterkari á öllum sviðum handboltans og íslenska liðið átti fá svör. Lokatölur þrettán marka sigur Svía, 33-20.
Þórey Rósa Stefánsdóttir og Helena Rut Örvarsdóttir voru markahæstar með fimm mörk hvor en íslenska liðið fékk litla sem enga markvörslu.
Skellur gegn Svíum
Anton Ingi Leifsson skrifar
