Hægt verður að hlusta á guðsþjónustuna og horfa á setningu þingsins í beinni útsendingu í spilaranum hér að neðan.
Dómorganistinn Kári Þormar leikur á orgel og Kammerkór Dómkirkjunnar syngur við athöfnina.
Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur Alþingi, 149. löggjafarþing, og að því loknu les forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, minningarorð um fyrrverandi alþingismann, Inga Tryggvason, sem lést nýverið. Strengjakvartett leikur tónlist við þingsetningarathöfnina. Strengjakvartettinn skipa Auður Hafsteinsdóttir og Vera Panitch fiðlur, Þórunn Ósk Marinósdóttir víóla og Bryndís Halla Gylfadóttir selló. Þá flytur forseti Alþingis ávarp.
Þingsetningarfundi verður síðan frestað til kl. 16.00. Þegar þingsetningarfundi verður fram haldið verður hlutað um sæti þingmanna. Fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 verður þá útbýtt.
Yfirlit helstu atriða þingsetningar:
Kl. 13.25 Þingmenn ganga til kirkju.
Kl. 13.30 Guðsþjónusta í Dómkirkjunni.
Kl. 14.05 Þingmenn ganga úr kirkju í Alþingishúsið.
• Strengjakvartett flytur Í fögrum dal eftir Emil Thoroddsen.
• Forseti Íslands setur þingið og flytur ávarp.
• Strengjakvartett flytur Í fjarlægð eftir Karl O. Runólfsson.
• Forseti Alþingis les minningarorð (Ingi Tryggvason).
• Strengjakvartett flytur Nótt eftir Árna Thorsteinsson.
• Forseti Alþingis stýrir þingfundi, býður þingmenn velkomna og flytur ávarp.
Framhald þingsetningarfundar:
Kl. 16.00 Tilkynningar, útbýting fjárlagafrumvarps 2019 og hlutað um sæti þingmanna.
Kl. 16.20 Fundi slitið.
Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða miðvikudagskvöldið 12. september kl. 19.30. Fjármálaráðherra mælir fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2019, sem kynnt var á blaðamannafundi í morgun, á fimmtudagsmorgun klukkan 10:30.