Bjarkey var í viðtali á Morgunvakt Rásar 1 í morgun ásamt Hönnu Katrínu Friðriksson Viðreisn. Þar voru loftslagsmál, peningastefna og krónan meðal annars til umræðu. Og svo traust til stjórnmálamanna eða vantraust öllu heldur, sem snúa þá meðal annars að fornfálegum vinnubrögðum.
Fjölmiðlar henda á loft „sölulegum“ ummælum
„Það má nú líka segja að fjölmiðlar eiga sinn þátt í því,“ sagði Bjarkey. „Við þekkjum það alvega þegar störf þingsins eru eða eitthvað slíkt þá eru kamerurnar komnar og þá skiptir máli að einhver sé með söluvæna setningu til að komast í fjölmiðlana. Það er líka það sem þarf svolítið að veiða úr…“
„Vissulega,“ sagði þá Bjarkey. „En það er hvatningin til þess. Og fjölmiðlarnir eru ekkert endilega að velta fyrir sér innihaldi þess sem sagt er heldur bara; þetta er sniðugt, þetta selur, þetta klikkar á vefinn og það er ekki hægt að neita því að það hefur verið þannig. Því miður finnst mér.“
Traustvekjandi afstaða eða kannski ekki
Helga Vala Helgadóttir furðar sig á orðum Bjarkeyjar og segir á sinni Facebooksíðu:„Þingflokksformaður VG, Bjarkey Ólsen, sagði aðspurði í morgunútvarpinu í umræðu um hvað þyrfti til að auka traust á stjórnmálum að stundum færi betur á því að fjölmiðlar slökktu á míkrafóninum... u ... ok.... þetta var traustvekjandi,“ segir Helga Vala og bætir við broskalli.

Hæpið að eigna Katrínu loftslagsmálin
Framganga Bjarkeyjar er einnig til umræðu á Facebooksíðu þingmannsins Guðmundar Andra Thorssonar sem klórar sér í kollinum. Hann er hins vegar að velta öðrum atriðum fyrir sér sem fram komu í máli Bjarkeyjar.„Bjarkey Ólsen talsmaður VG að segja í útvarpinu að enginn hafi talað um loftslagsmál fyrir tveimur árum nema Katrín Jakobsdóttir sem vakið hafi athygli okkar á vandanum. Það er nefnilega það. Mannkynið hefur vitað af þessum ógnum og hvað ber að gera frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og árið 2017 var undirritaður Parísarsáttmáli þjóða heims um losun gróðurhúsalofttegunda, að ég held án verulegs atbeina Katrínar. Spurning um svolítið námskeið um loftslagsmál innan þingflokks VG?“ spyr Guðmundur Andri.
Píratar hæðast að þingflokksformanninum
Snæbjörn Brynjarsson leggur orð í belg á síðu Guðmundar Andra: „Katrín Jakobsdóttir er líka samkvæmt þingflokki VG fyrsti vinstrisinnaði kvenkyns forsætisráðherrann svo það er ekki víst að þau muni langt aftur.“ Hann skrifar einnig athugasemd um téð viðtal í Facebookhóp Pírata þar sem ummæli Bjargeyjar eru höfð að háði og spotti og meðal annars bent á að þetta sé Trump-línan:„Var að hlusta á morgunvaktina á rás 1. Þar var Bjarkey Olsen þingflokksformaður spurð út í hvers vegna traust á stjórnmálamönnum væri lítið. Það reyndist að mati formannsins vera vegna fjölmiðla og hvernig þeir segja frá pólitíkinni.“