Í borgarráði í gær kom fram svar við fyrirspurn Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í minnihluta, um stöður og stöðuheiti, þá flokkað eftir sviðum, sem heyra undir Ráðhús Reykjavíkur og Höfðatorg.
Vel í lagt í öllum samanburði
Eyþór furðar sig á miklum vexti í starfsmannahaldi í samtali við Vísi og bendir til dæmis á til samanburðar að bara á skrifstofu borgarstjóra starfi 55 starfsmenn á meðan 75 starfsmenn starfa á skrifstofu skóla- og frístundasviðs sem sér um alla leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili í borginni. En undir það svið heyra 62 leikskólar með um 6000 börn.
Hann segir að miðað við þennan umfangsmikla rekstur skóla- og frístundasviðs hljóti að vakna sú spurning af hverju 75 starfsmenn geti sinnt þeim umfangsmikla rekstri á meðan 55 starfsmenn starfi á skrifstofu borgarstjóra?
10 starfsmenn á mannréttindaskrifstofu en 8 á ÍT
Enn fremur vekur Eyþór athygli á því að í þessum samanburði eru eingöngu átta starfsmenn sem starfa á íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkurborgar, sem annast allar sundlaugar, íþróttamiðstöðvar, skíðasvæði, Hitt húsið, Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, ylströndina og margt fleira.
Jafnframt verður það að teljast sérstakt að mannréttindaskrifstofan sé með 10 starfsmenn þegar að heilt svið á borð við íþrótta- og tómstundasvið kemst af með átta starfsmenn.„Það liggur fyrir í ljósi þessara svara að fara þurfi í gagngera endurskoðun á stjórnsýslunni með það að leiðarljósi að forgangsraðað verði í þágu grunnþjónustu,“ segir Eyþór.
Kostnaðurinn óútskýrður
Eyþór segir kostnaðinn við skrifstofu borgarstjóra og borgarritara hafa vaxið úr hófi fram, uppúr öllu valdi og sé kostnaður samfara því algerlega óútskýrður.„Til að mynda er ekki haldið verkbókhald á skrifstofunni en Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu þess efnis í borgarráði sem enn er óafgreidd í ráðinu,“ segir Eyþór. Hann telur borgarbúa eiga skýlausan rétt á því að fá upplýsingar um hvers vegna skrifstofa borgarstjóra og borgarritara þurfi á 55 starfsmönnum að halda, með tilheyrandi auknum kostnaði, þegar stærstu svið borgarinnar eru með hlutfallslega færri starfsmenn.
Vísir reyndi nú í morgun að ná tali af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra en án árangurs. Í tengdum skjölum hér neðar getur að líta svar við fyrirspurninni og nánari útlistun á starfsmannahaldi í Ráðhúsinu.