Skoðun

Gerum lífið betra

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar
Ísland er að mörgu leyti gott samfélag. Menningarlíf landsmanna er í blóma, stutt er í óviðjafnanlega náttúrufegurð og yfirleitt er mikil nálægð við fjölskyldu og vini. Hins vegar er sumt sem er þyngra en tárum taki. Í hverri viku deyr einn Íslendingur vegna ofneyslu lyfja og annar mun fremja sjálfsvíg. Í dag búa 6.000 íslensk börn við fátækt og um hundrað eldri borgarar búa á spítalanum því önnur úrræði eru ekki fyrir hendi.

Þetta þarf ekki að vera svona. Við erum einungis 350 þúsund og við erum 11. ríkasta land í heimi.

Við þurfum ekki láta eldri borgara og fjölskyldur þeirra búa við óvissu og bág kjör. Við þurfum ekki að refsa öryrkjum fyrir að vinna. Við þurfum ekki að setja minni fjármuni í háskólana en nágrannaþjóðir okkar gera. Við þurfum ekki að láta ljósmæður fara í kjaradeilu. Við þurfum ekki að láta löggæslu og samgöngur drabbast niður. Við þurfum ekki að hafa samfélag þar sem ríkasta 1% landsmanna á meira en 80% þjóðarinnar. Við þurfum ekki að hafa bæjarstjórann í Þorlákshöfn á hærri launum en borgarstjórann í London. Við þurfum ekki að lækka veiðileyfagjöld helmingi meira en það sem stendur til að hækka persónuafslátt fólks. Og við þurfum ekki að vera eitt dýrasta land í heimi.

Við lestur á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er ljóst að stórútgerðarmenn þurfa ekki að fara í mikla kjaradeilu við þessa ríkisstjórn eins og ljósmæður þurftu að gera.

Enn á að refsa öryrkjum fyrir samfélagsþátttöku sína og eldri borgarar þurfa áfram að bíða eftir mannsæmandi kjörum. Barnabætur eru enn skilgreindar sem fátækrastyrkur og framhaldsskólarnir fá beinlínis lækkun á fjárframlögum milli ára.

Við höfum allt til alls á landinu okkar ef við viljum. En þá þarf að hætta að dekra við sérhagsmuni og sjálftökuliðið.

Hlúum að hinum venjulega Íslendingi og gerum lífið auðveldara og ódýrara.



Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×