Erlent

Neyðaraðstoðinni við Grikkland lokið

Kjartan Kjartansson skrifar
Kreppan hefur gengið nærri Grikkjum. Búist er við því að það muni taka þá áratugi að greiða upp neyðarlánin sem þeir fengu.
Kreppan hefur gengið nærri Grikkjum. Búist er við því að það muni taka þá áratugi að greiða upp neyðarlánin sem þeir fengu. Vísir/EPA
Síðasta hluta neyðarlánaáætlunar Grikkja lauk í dag en björgunarpakkinn sem Evruríkin veittu Grikkjum var sá stærsti í sögunni. Búist er við því að það muni taka Grikki áratugi að greiða upp lánin og hagkerfi landsins er enn fjórðungi smærra en það var fyrir fjármálaáfallið.

Síðasti hluti björgunarpakkans nam tæpum 62 milljörðum evra yfir þriggja ára tímabil. Í heild fengu Grikkir lánaða um 289 milljarða evra. Eftir að síðasta hluta lánaáætlunarinnar lauka geta Grikkir nú fengið lánað á markaðsvöxtum í fyrsta skipti í átta ár, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Óvinsælar niðurskurðaraðgerðir halda þó enn áfram en þær voru eitt skilyrða björgunarpakkans. Þrátt fyrir hægan efnahagsbata er gríska hagkerfið enn 25% smærra en fyrir kreppuna. Aðeins hagkerfi Jemen, Líbíu, Venesúela og Miðbaugs-Gíneu hafa skroppið meira saman síðasta áratuginn.

„Frá og með deginum í dag verður komið fram við Grikki eins og hvert annað Evrópusambandsland,“ sagði Pierre Moscovici, efnahags- og fjármálastjóri Evrópusambandsins í tilefni dagsins.

Um tíma virtist sem að efnahagshrunið í Grikklandi gæti ógnað tilvist evrusvæðisins. Gengi hennar féll í lægstu lægðir og í kjölfarið lögðust Evruríkin á eitt um að bjarga efnahagi Grikkja með röð neyðarlána árið 2010. Tilgangurinn var að endurfjármagna bankakerfið og standa straum af endurskipulagningu hagkerfisins.

Þegar ástandið í Grikklandi var sem verst nam atvinnuleysi um 28%. Nú er það rétt undir 20%. Talið er að um 300.000 Grikkir hafi róið á önnur mið erlendis frá því að kreppan skall á. Skuldir ríkisins nema enn um 180% af þjóðarframleiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×