Tæplega þrjú hundruð sauðfjárbændur hafa enn ekki skilað vorbók í Fjárvísi sem merkir að þeir muni að óbreyttu ekki fá stuðningsgreiðslur til sín greiddar um næstu mánaðarmót.
Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að þessi fjöldi komi verulega á óvart í ljósi þess að skilafresti var frestað um mánuð frá fyrra ári til að gefa bændum rýmri tíma til að ganga frá skýrsluhaldinu, sem og auðvitað að þetta muni þýða frestun á stuðningsgreiðslum.
„Í samningum bænda og ríkis sem tók gildi 1. janúar 2017 er sett skilyrði fyrir stuðningsgreiðslum til bænda að þeir þurfi að vera þátttakendur í afurðaskýrsluhaldi og skuli skila fullnægjandi skýrsluhaldi innan tímamarka. Þannig er kveðið á um það í reglum um stuðning við sauðfjárrækt að sauðfjárbændur skuli skila vorbók í Fjárvís eigi síðar en 20. ágúst ár hvert, ella skuli stuðningsgreiðslur frestast frá og með 1. september það ár.
Matvælastofnun sem annast stuðningsgreiðslur ber því samkvæmt þessu að fresta greiðslum í september til þeirra sauðfjárbænda sem hafa ekki skilað vorbók í Fjárvís.“ segir í tilkynningunni.
Nánar má lesa um málið á vef Matvælastofnunar.
