Að minnsta kosti 22 börn drukknuðu þegar bátur með á fimmta tug manna sökk á Nílarfljóti í Súdan í dag. Frá þessu greinir ríkisfjölmiðillinn Suna.
Björgunarlið var að störfum í allan dag, en flestir um borð í bátnum voru ungir nemendur. Reuters segir einnig frá því að vitað sé til að fullorðin kona hafi einnig verið í hópi þeirra sem drukknuðu.
Slysið varð um 750 kílómetrum norður af höfuðborginni Kartúm. Að sögn Suna missti báturinn afl á straumþungum stað í fljótinu, en honum var stefnt til bæjarins Kabna.
