Tilkynning á Facebooksíðu lögreglunnar vakti mikla athygli í gær, en þar var hjólreiðafólk hvatt til að gera betur í umferðinni. Ummælin hafa verið gagnrýnd og hjólafólk segir þessa aðferð ekki vænlega til árangurs. Það þurfi samvinnu allra til að samgöngur gangi betur.
Á Facebook síðu lögreglunnar stendur meðal annars: Ábendingar eða kvartanir um reiðhjólafólk sem fer ógætilega hafa borist frá vegfarendum í öllum sveitarfélögum í umdæminu og segir það sína sögu. Þeir sem kvarta undan hjólreiðamönnum segja þá meðal annars glannalega og hjóla í veg fyrir aðra vegfarendur, ýmist á akbrautum eða göngustígum.
Erla Sigurlaug Sigurðardóttir, hjólakona og formaður hjólreiðarfélagsins Tinds, segir hjólreiðasamfélagið hafa verið sárt í gær. Hún segir það leiðinlegt að lögreglan sé að setja hjólreiðafólk sem skotmark og að það sé aldrei vænlegt til árangurs.
„Þetta er aldrei vænlegt til árangurs í þessu jafnvægi sem við erum að reyna að búa til með ökumönnum. Það er þannig að hjólafólk á hvorki heima á götunni né á stígunum, við erum dálítið heimilislaus þannig séð. Við sem erum að hjóla viljum góða sambúð og það að yfirvaldið taki þessa afstöðu gegn okkur er afskaplega leiðinlegt,” segir hún.
Hún bendir á að hjólreiðafélögin leggi mikið upp úr því að kenna hjólafólki að hjóla rétt og taka tillit, haldin eru námskeið og lögð sé áhersla á góða hjólamenningu. “Þetta tekur tíma. Við þurfum að ala upp bílasamfélagið líka. Þetta snýst ekki bara að hjólafólk þurfi að taka tillit. Þetta virkar í báðar áttir. Svo þarf að sjálfsögðu að fjölga hjólastígum svo við fáum pláss, það myndi leysa mikinn vanda,” segir Erla.
