Innlent

Jóhann lést af völdum ofneyslu kókaíns

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jóhann Jóhannsson tónskáld.
Jóhann Jóhannsson tónskáld. Vísir/Getty
Tónskáldið Jóhann Jóhannsson lést af ofneyslu kókaíns. Þetta kemur fram í eiturefnarannsókn sem saksóknaraembættið í Berlín lét gera í kjölfar andláts Jóhanns. Þýska dagblaðið Bild greinir frá þessu.

Jóhann fannst látinn í íbúð sinni í Berlín þann 9. febrúar síðastliðinn. Hann var 48 ára gamall.

Í niðurstöðum eiturefnarannsóknarinnar kom fram að Jóhann hafi tekið lyf vegna veikinda sem hann glímdi við. Of stór skammtur af kókaíni hafi hins vegar dregið hann til dauða.

Sjá einnig: Jóhanni lýst sem hlýjum og einstökum

Áður en Jóhann lést í febrúar vann hann að kvikmyndatónlist fyrir myndina Mandy í leikstjórn Panos Cosmatos. Tilkynnt var um það á dögunum að tónlist Jóhanns verði sérstaklega gefin út sama dag og kvikmyndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum, þann 14. september næstkomandi.

Cosmatos, leikstjóri myndarinnar, tjáði sig um andlát Jóhanns í fréttatilkynningu fyrr í þessum mánuði.

„Jóhann reyndi á ystu þolmörk sín, og mig grunar að hann hafi reynt á þolmörk geðheilsu sinnar, til að semja tónlistina fyrir þessa kvikmynd. Orð hans og gjörðir gerðu það að verkum að hann var meira en frábær samstarfsmaður, hann var mér sem bróðir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×