Þegar Björn sýndi okkur minkabúið sitt í Vopnafirði fyrir ellefu árum ríkti góðæri í greininni. Loðdýrabændur höfðu raunar bestu afkomu íslenskra bænda árum saman, fengu til dæmis 12.500 krónur fyrir hvert minkaskinn árið 2013 þegar framleiðslukostnaður var áætlaður um 5.000 krónur að meðaltali.
En svo féll verðið, og nú er það er komið niður í 3.400 krónur meðan framleiðslukostnaður hefur hækkað í um 6.000 krónur á hvert skinn.

„Jebb. Ég er hættur. Eftir 33 ár í bransanum þá lokuðum við sjoppunni hér í fyrra,” segir Björn þegar við ræðum við hann á hlaðinu á Akri.
Sjötíu prósenta verðfall á minkaskinnum réði þó ekki úrslitum en Björn er áfram kúabóndi.
„Ég er kominn á sjötugsaldur og skrokkurinn á mér, - ég er búinn að nota hann talsvert í erfiðisvinnu. Ég er ekkert viss um að hann hefði dugað mikið lengur. Þetta er erfiðisvinna.”
-Þetta er ekki yfirlýsing um það að þú teljir grundvöll vera brostinn og hann sé ekkert að koma aftur?
„Nei, svo langt frá því. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um það að eftirspurn eftir loðskinnum verður áfram í heiminum. Það er einhver þúsunda ára hefð fyrir því að nota skinnavöru og það er mjög mikil eftirspurn eftir henni. Í augnablikinu, - og þetta augnablik er kannski orðið óþarflega langt, - er afleiðing af mikilli offramleiðslu sem var á árunum 2012 til 2014.”

„Ég er ekkert í vafa um það. Ég væri ekkert hissa þó að það væru 2-3 ár þangað til að þetta væri komið í almennilegt horf.
Eftirspurnin er fyrir hendi og vilji fólks til þess að nýta þessa vöru, hann er fyrir hendi. Og þá kemur verðið upp þegar komið er á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Það segja allavega markaðslögmálin,” segir Björn Halldórsson, fyrrverandi loðdýrabóndi.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: