Búið er að stórskemma stjörnu Donalds Trump á Hollywood Boulevard í Los Angeles.
Stjarnan var á einni af rúmlega 2600 gangstéttarhellum sem hafa verið lagðar í götuna til að minnast goðsagna úr heimi skemmtanaiðnaðarins. Þessi kafli götunnar er þekktur sem The Walk of Fame.
Skemmdarvargurinn kom á vettvang fyrr í dag með gítartösku. Sjónarvottar segja að hann hafi skyndilega opnað töskuna og tekið upp stærðarinnar haka sem hann geymdi þar.
Hann hafi síðan ráðist á stjörnuna af alefli með hakanum og hoggið hana í spað með látum. Öryggisverðir á staðnum lögðu ekki í manninn þar sem þeir voru óvopnaðir og leist ekki á að yfirbuga mann sem fór hamförum með haka á miðri götunni.
Þetta er ekki fyrsta árásin á stjörnu Trumps í Hollywood. Fyrir tveimur árum réðst maður til atlögu með haka og loftpressu til að reyna að fjarlægja nafn Trumps af gangstéttinni.
Sagðist maðurinn hafa verið að bregðast við myndbandinu sem tekið var af Trump þar sem hann talaði um að hann gæti gripið í kynfæri kvenna að vild vegna frægðar sinnar og auðs.
Maðurinn fékk þriggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm, þurfti að borga hálfa milljón króna fyrir skemmdirnar og vinna 20 daga í samfélagsþjónustu.
Skemmdarvargurinn í dag gaf sig fram við lögreglu og verður að líkindum ákærður fyrir gróf eignaspjöll. Það telst „felony“ eða alvarlegur glæpur í bandaríska dómskerfinu.