Erlent

Ætlar að mæta áfram til vinnu þrátt fyrir ný lög

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Małgorzata Gersdorf, forseti Hæstaréttar Póllands.
Małgorzata Gersdorf, forseti Hæstaréttar Póllands. Wikipedia Commons
Forseti hæstaréttar Póllands sór þess eið í gær að berjast gegn nýjum lögum þar í landi sem lækka eftirlaunaaldur hæstaréttardómara. Hún lýsir nýju lögunum sem „hreinsun ríkisstjórnarinnar á réttinum“.

Samkvæmt nýju lögunum lækkar eftirlaunaaldur dómara úr 70 árum niður í 65 ár en breytingin tók gildi á miðnætti í gær. Breytingarnar fela í sér að nærri 40 prósent dómara við réttinn þurfa að hætta störfum.

Sjá einnig: Þvinga dómara fyrr á eftirlaun

Breytingin er afar umdeild en margir telja að með henni sé vegið að sjálfstæði dómstóla og reynt að gera þá hliðhollari stjórnvöldum. Evrópusambandið hefur meðal annars barist gegn henni. Ríkisstjórn landsins segir hins vegar að breytingin sé til þess fallin að berjast gegn spillingu og auka skilvirkni dómstólsins.

Małgorzata Gersdorf, forseti hæstaréttar, er í hópi dómara sem munu þurfa að láta af störfum vegna laganna. Dómarar eldri en 65 ára geta enn starfað við réttinn en þurfa til þess sérstakt leyfi stjórnvalda. Hún óskaði eftir slíku en fékk ekki.

„Plön Gersdorf hafa ekkert breyst. Hún hefur í hyggju að mæta áfram til vinnu,“ sagði talsmaður hæstaréttar við blaðamenn í gær.




Tengdar fréttir

Þvinga dómara fyrr á eftirlaun

Pólsk stjórnvöld ætla að þvinga 27 af 72 hæstaréttardómurum til að fara fyrr á eftirlaun, það er 65 ára í stað 70 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×