Handbolti

Tvær íslenskar stelpur meðal þeirra átta markahæstu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Markvörðurinn Heiðrún Dís Magnúsdóttir á milli þeirra Söndru Erlingsdóttur og Lovísu Thompson.
Markvörðurinn Heiðrún Dís Magnúsdóttir á milli þeirra Söndru Erlingsdóttur og Lovísu Thompson. Mynd/HSÍ á fésbókinni
Íslenska tuttugu ára landslið kvenna í handbolta er komið í sextán liða úrslit á HM í Ungverjalandi eftir þrjá sigra og eitt jafntefli í fimm leikjum sínum í riðlakeppninni.

Tvær íslenskar stelpur voru í hópi þeirra átta markahæstu í riðlakeppninni en þetta eru þær Lovísa Thompson og Sandra Erlingsdóttir.

Sandra Erlingsdóttir er í 5. sæti með 29 mörk en því sæti deilir hún með kínversku stelpunni Zhou Mengxue og rúmensku stelpunni Sorina Maria Tirca.

Sandra hefur skorað 17 af 29 mörkum sínum af vítalínunni þar sem hún hefur nýtt 81 prósent skota sinna. Hún er alls með 74 prósent skotnýtingu á mótinu.

Lovísa Thompson er í 8. sætinu með 28 mörk en þau hafa öll komið utan af velli. Enginn annar leikmaður á topp átta hefur skorað öll mörkin sín utan af velli.

Langmarkahæst á HM til þessa er Helena Paulo frá Angóla. Hún hefur skorað 56 mörk eða þrettán mörkum meira en sú sem er í öðru sæti en það er Dione Housheer frá Hollandi. Það eru síðan önnur tíu mörk í þriðja sætið þar sem situr Natsuki Aizawa frá Japan. Hér má sjá markahæstu leikmenn á síðu Alþjóðahandboltasambandsins.

Sandra og Lovísa eru einnig þeir leikmenn íslenska liðsins sem hafa gefið flestar stoðsendingar í fyrstu fimm leikjunum eða tíu hvor.

Þriðji og fjórði markahæsti leikmaður íslenska liðsins á HM eru þær Lena Margrét Valdimarsdóttir og Andrea Jacobsen sem báðar hafa skorað 14 mörk.

Hér má sjá alla tölfræði íslenska liðsins á síðu Alþjóðahandboltasambandsins.

Valsmenn fagna væntanlega frammistöðu þeirra Söndru Erlingsdóttur og Lovísu Thompson en þær sömdu báðar við Hlíðarendaliðið í sumar. Sandra kemur frá ÍBV og Lovísa frá Gróttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×