Innlent

Íslendingur segir það falsfrétt að hann hafi kysst og áreitt fréttakonu

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Skjáskotið sem CNN notaði segir ekki alla söguna að sögn Gunnars
Skjáskotið sem CNN notaði segir ekki alla söguna að sögn Gunnars
„Ég kyssti engan og ég áreitti ekki neinn. FALSFRÉTTIR!“ segir Gunnar Sigurður Guðmundsson, sem birtist á skjánum í umfjöllun fréttastöðvarinnar CNN um kynferðislega áreitni sem fréttakonur hafa orðið fyrir á HM í Rússlandi.

CNN birti myndina sem dæmi um óviðeigandi hegðun karlkyns áhorfenda á mótinu gagnvart fjölmiðlakonum sem voru að vinna vinnuna sína. Var Gunnar í fullum skrúða íslenska landsliðsins á myndinni sem virðist sýna hann áreita fréttakonu.

Umfjöllun CNN má sjá hér að neðan.

Gunnar sagði í samtali við fréttastofu að þetta væri dæmi um falsfréttir og ranga frásögn fjölmiðla.

„Kyn fréttamannsins skipti mig engu máli,“ segir hann. „Ég ætlaði bara að fíflast aðeins og fá smá athygli. Ég var að þykjast vera þessi víkínga-týpa sem er að búa sig undir orrustu, þetta var fyrir leikinn við Argentínu.“

Að neðan má sjá augnablikið með Gunnari í heild sinni sem íþróttafréttakonan Agos Larocca deildi á Twitter. Hún virðist hafa húmor fyrir uppákomunni, segir Argentínu hafa unnið baráttuna utan vallar (leikurinn fór 1-1) og þakkar kollega sínum fyrir sem hún titlar í gríni lífvörð.

„Konan mín er hérna með mér og ég tel mig alveg nógu vel gefinn til að vita betur en að vera að grípa í fólk og kyssa það.“

„Þetta hafði nákvæmlega ekkert með neitt kynferðislegt að gera. Það vildi bara svo til að þarna var kona fyrir framan myndavélina, ég hefði látið alveg eins ef þetta hefði verið karl.“

„Þannig að ef einhver er að leita að afsökunarbeiðni frá mér, þá hef ég bara ekkert til að biðjast afsökunar á.“

Gunnar hitti stuðningsmenn hinna ýmsu þjóða í Rússlandi og þeirra á meðal markahæsta landsliðsmann karla frá upphafi, Eið Smára Guðjohnsen.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×