Um 220 flóttamenn hafa drukknað undan ströndum Líbíu síðustu dagana, að því er fram kemur í skýrslum sem borist hafa Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Í frétt DR kemur fram að einungis fimm hafi komist lífs af þegar bátur með um hundrað manns hvolfdi á hafi úti á þriðjudag. Sjötíu hafi drukknað þegar bátur með um 130 manns um borð sökk sama dag, og í gær eiga fimmtíu manns hið minnsta einnig að hafa farist.
Flóttamannstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt til að björgunaraðgerðir og eftirlit verði aukið.

