Markvörður Liverpool, Loris Karius, fékk heilahristing í úrslitaleiknum gegn Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Þetta staðfesta læknar í Bandaríkjunum.
Karius gerði sig sekan um tvö skelfileg mistök í leiknum og nánast færði Real tvö mörk á silfurfati en Liverpool tapaði leiknum að lokum, 3-1.
Karius fór í myndatöku á spítalanum í Massachusetts þar sem hann er í fríi og þar kom í ljós að markvörðurinn hlaut heilahristing í leiknum.
Þýski markvörðurinn lenti í samstuði við Sergio Ramos snemma í síðari hálfeiknum. Skömmu síðar færði hann svo Real gjöf á silfurfati er hann kastaði boltanum í Karin Benzema og inn fór hann.
Skot Gareth Bale síðar í leiknum virtist einnig beint á Karius en hann missti boltann inn og gerði þar með út um leikinn. Læknateymi Liverpool var áhyggjufullt um að Karius hafði fengið heilahristing og það var raunin.
