Lögreglumenn hjá Lögreglunni á Suðurlandi fengu útkall um klukkan hálf sjö í gærkvöldi vegna ölvaðs manns í Biskipstungum í Bláskógabyggð, sem gekk berserksgang við heimilið sitt á tveggja tonna gröfu. Á leið sinni á vettvang mættu lögreglumenn manninum á bíl og voru honum gefin stöðvunarmerki en þeim sinnti hann ekki, heldur ók á undan lögreglu áleiðis eftir Skálholtsvegi.

„Hann fer upp Þjórsárdalsveg og þá í ljósi aksturslags mannsins er tekin ákvörðun um að þvinga hann út af vegi til að stöðva hann. Það er gert og við það veltur bílinn hjá honum. Hann slasast eitthvað og er fluttur með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík.
Oddur segir að maðurinn hafi verið á gjörgæslu í nótt en hafi verið útskrifaður á almenna deild í dag. Mikil hætta skapaðist í gærkvöldi.
„Já, þegar það er farið að þvinga menn út af þá er alltaf ákveðin hætta,“ segir Oddur.
Maðurinn sem um ræðir skipar annað sæti á lista Nýs afls í Bláskógabyggð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí. Jón Snæbjörnsson, oddviti listans hefur þetta um málið að segja.
„Allt sem ég get sagt er að þetta er bara mannlegur harmleikur, þetta verður bara að ráðast.“
En hvað heldur Jón að gerist á fundinum í kvöld?
„Ég veit það ekki, ég veit ekki hvað ég get sagt, þetta er eitthvað sem við skoðum í sameiningu.“