Skoðun

Ævitekjur Berglindar

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar
Berglind er dæmigerð íslensk kona. Hún hefur lokið stúdentsprófi og aflað sér háskólagráðu og starfsréttinda. Hún kemur út á vinnumarkaðinn um 25 ára aldurinn og er svo heppin að fá starf í sínu fagi. Hún eignast maka og börn. Húsnæðisöryggi er lítið og hún ræðst í að kaupa íbúð.

Í háskólanámi framfleytti hún sér með lánum frá LÍN. Hún átti þess ekki kost að fá fjárhagslegan stuðning frá foreldrum sínum. Berglind starfar hjá hinu opinbera og gengur inn í nýtt og samræmt lífeyriskerfi á vinnumarkaði. Ávinnsla lífeyrisréttinda er mest fyrstu árin á vinnumarkaði en minnkar svo þegar hún eldist. Þetta kemur ekkert sérstaklega vel út fyrir Berglindi sem kemur seinna inn á vinnumarkaðinn en þeir sem ekki fara í háskólanám.

Hún þarf auðvitað að greiða af námslánunum og þær afborganir samsvara einni útborgun launa á ári. Afborganir húsnæðis- og námslána taka í heimilisreksturinn en þetta hefst með ráðdeild og hagsýni. Berglind er með rúmlega hálfa milljón á mánuði í heildarlaun. Samanlagðar tekjur hennar og makans þýða að heimilið fær svo að segja engar bætur frá ríkinu, hvorki vaxta- né barnabætur. Berglind á þess ekki kost að leggja fyrir eða leyfa sér einhvern óþarfa.

Dæmið af Berglindi er tilbúið dæmi en samt hlutskipti mjög margra háskólamenntaðra á vinnumarkaði. Ráðstöfunartekjur hennar eru litlu hærri en ráðstöfunartekjur þess sem ekki hefur lokið háskólanámi. Ávinningur Berglindar er lítill í alþjóðlegum samanburði. Öll menntun er fjárfesting samfélags í einstaklingum og sjálfu sér. Um það er ekki deilt en svo virðist sem lítill skilningur sé fyrir því á Íslandi að langskólamenntun sé fjárfesting sem umbuna beri fyrir.

BHM hefur ítrekað bent á að þetta sé óviðunandi staða sem skaði langtímahagsmuni íslensks samfélags. Fólk sem hefur aflað sér menntunar verður að sjá sér hag í því að setjast hér að og taka þátt í uppbyggingu samfélagsins. Ellegar verður Ísland undir í samkeppninni við önnur lönd um verðmæta þekkingu og hæfni.

Höfundur er formaður BHM




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×