Skoðun

Léttum byrðarnar hjá þeim eldri

Eyþór Arnalds skrifar
Sífellt fleiri ná því að komast á lífeyrisaldur. Eldri borgurum fjölgar. Margir hafa enn þá getu og vilja til að vinna, en fá á sig ýmsar tekjuskerðingar á móti. Þetta fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt enda samþykkti Sjálfstæðisflokkurinn á landsfundi sínum að afnema beri slíkar skerðingar. Álögur á íbúa í Reykjavík hafa hækkað mikið á síðustu fjórum árum. Fasteignagjöld og gjaldskrár hafa hækkað um tugi prósenta. Við sem skipum framboðslista Sjálfstæðisflokksins viljum létta byrðar þeirra sem eldri eru og stuðla að því að þeir fái lifað sjálfstæðu lífi með reisn. Reykjavík getur lagt sitt af mörkum.

Eitt af því sem við höfum lofað að beita okkur fyrir er að þeir sem eru komnir yfir sjötugt þurfi ekki lengur að greiða fasteignaskatt af lögheimili sínu. Slík niðurfelling hefur verið háð þröngum tekjumörkum og hefur þannig verið einn af þeim jaðarsköttum sem bitna illa á þeim sem komnir eru á efri ár. Það er skynsamlegt að draga úr refsisköttum og skerðingum. Borgin hefur misst tökin á húsnæðismálunum þrátt fyrir fögur fyrirheit. Leiguverð og kaupverð hafa snarhækkað á síðustu fjórum árum með tilheyrandi hækkunum á gjöldum.

Borgin hefur staðið í málaferlum við öryrkja og neitað að borga lögbundnar húsaleigubætur. Fulltrúar núverandi meirihluta hafa fellt tillögur okkar um lækkun fasteignaskatts í 0,16%. Þeir hafa gagnrýnt hugmyndir um að fella niður fasteignaskatt á eldri borgara og staðið gegn umræðu um lausnir í því efni. Í staðinn fyrir þessa neikvæðu stefnu á Reykjavík að vera leiðandi og stuðla að heilbrigðri þátttöku eldri borgara í starfi og leik. Styðja þá sem geta og vilja búa heima hjá sér og bæta jafnframt heimaþjónustuna. Höfuðborgin hefur upp á margt að bjóða í menningu og sem ferðamannaborg. Okkar skylda er að gera vel við íbúana. Ekki síst þau sem byggðu upp samfélagið sem við búum í og eru nú komin á efri ár. Léttum byrðar þeirra sem ruddu brautina og lækkum gjöldin á íbúana.

Höfundur skipar fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×