Ríflega 5.000 Róhingjar sem fastir eru á landsvæði sem liggur á milli Bangladess og Mjanmar, og hvorugt ríkið gerir tilkall til, fengu í gær heimsókn frá sendiboðum beggja ríkja. Áttu sendiboðarnir fund með fulltrúum Róhingja þar sem bangladessku sendiboðarnir hvöttu flóttamennina til að halda aftur heim.
Nærri 700.000 Róhingjar hafa flúið Rakhine-hérað Mjanmar frá því þjóðernishreinsanir mjanmarska hersins á þeim hófust í ágúst síðastliðnum. Hafa þeir allflestir farið til Bangladess en stjórnvöld ríkjanna tveggja hafa komist að samkomulagi um að senda Róhingjana aftur heim. Þar er brotið á mannréttindum þeirra.
Dil Mohammed, leiðtogi Róhingjanna á svæðinu, sagði í gær að hann hefði ítrekað kröfur Róhingja á fundinum. Meðal annars um að friðargæslusveitum SÞ og hjálparsamtökum yrði hleypt til Rakhine.
Mohammad Abul Kalam, sendiboði bangladesskra yfirvalda, sagði að Bangladessar hefðu beðið yfirvöld í Mjanmar um að tryggja öryggi Róhingja og einungis þá væri hægt að senda Róhingjana aftur heim.
